Ritstjórnarreglur 365 miðla ehf.

1. gr.
Fréttamiðlar fjölmiðlaveitunnar 365 miðla ehf. skulu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi, sbr. ákvæði laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
2. gr.
Þeir sem fjallað er um eiga rétt á að koma sínum sjónarmiðum að í umfjöllun og skulu verndaðir gegn óréttmætri efnismeðferð. Leiðréttingum skal komið á framfæri á áberandi hátt. Hagsmunir auglýsenda og/eða eigenda eru aldrei hafðir til hliðsjónar við vinnslu efnis. Til að almenningur þurfi aldrei að vera í vafa um hlutleysi umfjöllunar skal gera skýran greinarmun á auglýsingum og öðru efni.
3. gr.
Hlutverk fréttamiðla 365 er að upplýsa almenning. Ritstjórn þeirra er sjálfstæð og skal starf hennar taka mið af því að aldrei sé efast um trúverðugleika miðla 365. Ritstjórnarlegt sjálfstæði skal virt og skal ritstjórnarefni óháð stjórn og eigendum. Í veigamiklum málum skal hafa samráð við ábyrgðarmann miðlanna. Ef eigandi, stjórnarmaður eða starfsmaður miðlanna er andlag umfjöllunar skulu athugasemdir um einstök efnistök, eftir birtingu, send á ritstjóra viðkomandi miðils, með afriti á ábyrgðarmann. Við úrlausn slíkra athugasemda skal farið með sem um ótengdan aðila sé að ræða.
4. gr.
Ritstjórn skal aldrei notfæra sér í eigin þágu upplýsingar eða aðstæður sem skapast vegna fréttaöflunar og skulu starfsmenn ritstjórnar upplýsa um hagsmuni sína, sem hugsanlega geta haft áhrif á umfjöllunarefni.
5. gr.
Ritstjórn skal eftir fremsta megni virða að vettugi hvers kyns hótanir eða aðrar þvinganir vegna fréttaumfjöllunar
6. gr.
Ritstjórn ber virðingu fyrir meginreglu réttarríkisins um að menn eru saklausir uns sekt er sönnuð. Ritstjórn gætir trúnaðar við heimildarmenn ef þeir óska nafnleyndar, en þeir eru þó alltaf hvattir til að koma fram undir nafni.
7. gr.
Almennt skal hafa tvo sjálfstæða heimildarmenn frá fyrstu hendi að sérhverri viðkvæmri frétt. Viðkvæm telst frétt sem reynt er af einhverjum ástæðum að halda leyndri fyrir fjölmiðlum. Nægilegt er þó að hafa einn heimildarmann ef ritstjórar meta að sú heimild sé sérstaklega örugg.
8. gr.
Yfirmaður fréttastofu 365 miðla ehf. ber ábyrgð á öllum fréttaflutningi á vegum fréttastofunnar. Stjórn og forstjóri 356 miðla ehf. bera að öðru leyti ábyrgð á starfsemi fjölmiðlaveitunnar og því efni sem hún miðlar.
9. gr.
Ábyrgðarmaður miðlanna skal koma á framfæri rökstuddum og skriflegum athugasemdum við viðkomandi ritstjóra, telji hann að brotið hafi verið gegn reglum þessum eða farið hafi verið út fyrir markaða ritstjórnar- og dagskrárstefnu. Ritstjóra verður ekki sagt upp störfum vegna efnistaka nema að fenginni a.m.k. einni formlegri áminningu, nema brot sé mjög vítavert. Samþykkt á stjórnarfundi 365 miðla ehf í janúar 2014